Slitastjórn Glitnis segir, að réttarhöldum yfir Jóni Ásgeiri Jóhannessyni og fleirum, sem fara áttu fram í dag í hæstarétti Manhattan í New York hafi verið frestað til að gefa málsaðilum tækifæri til að leggja fram frekari greinargerðir og koma að athugasemdum um skjöl sem nýverið hafa komið í leitirnar og hafa verið efni bréfaskipta milli málsaðila og dómstólsins síðustu vikur.
Þá hafi verjendur tekið fram að þeir muni draga til baka lögfræðiálit Brynjars Níelssonar, lögmanns, og að þeir muni leggja fram aðra yfirlýsingu frá íslenskum sérfræðingi. Verði nafn hans kynnt síðar.
Ný dagsetning á réttarhöldunum verður kynnt þegar málsaðilar og dómstóllinn hafa komið sér saman um hana.
Verjendur sjömenninganna, sem slitastjórn Glitnis hefur stefnt fyrir dóminn í New York, birtu í október lögfræðiálit frá Brynjari Níelssyni þar sem hann rökstuddi það álit, að íslenskir dómsstólar gætu leyst úr ágreiningnum, sem tekist er á um í skaðabótamálinu.
Slitastjórnin gagnrýndi harðlega, að í lögfræðiálitinu kæmi ekki fram, að Brynjar starfaði fyrir slitastjórnina fram á mitt þetta ár. Hins vegar væri þess getið, að Brynjar sé formaður Lögmannafélags Íslands.
Í bréfi, sem Brynjar ritaði 1. nóvember og lagt var fram í réttinum, kemur fram að tilurð yfirlýsingar hans um hæfi íslenskra dómstóla sé sú, að lögmaður eins stefndu hafi kynnt honum yfirlýsingu Þórðar S. Gunnarssonar, forseta lagadeildar Háskólans í Reykjavík þess efnis að íslenskir dómstólar væru ekki í stakk búnir til að leysa úr máli af þessu tagi.
„Ég lýsti
því yfir að ég væri ósammála Þórði og var ég þá spurður af því hvort ég
væri tilbúinn að gefa yfirlýsingu þess efnis sem lögmenn stefndu mættu
leggja fram í dómsmálinu. Ég veitti samþykki mitt fyrir því," skrifaði
Brynjar.