Fréttaskýring: Ríkisskuldabréf eða bara rauðvín?

Vilhjálmur Bjarnason ráðleggur fólki stundum bara að kaupa rauðvín „Það …
Vilhjálmur Bjarnason ráðleggur fólki stundum bara að kaupa rauðvín „Það hefur ánægju af því að lokum.“

Fjármálafyrirtæki finna nú fyrir auknum áhuga sparifjáreigenda á ríkisskuldabréfum, líkt og fram kom í Morgunblaðinu í gær. Innlánsreikningar bankanna eru farnir að bera neikvæða raunvexti en þar inni liggja nærri 90 milljarðar króna.

En eru ríkisskuldabréf besti kosturinn fyrir sparifjáreigendur? Hljóma engar viðvörunarbjöllur þegar bankarnir eru farnir að hvetja fólk til að festa fé sitt frekar í verðbréfum ríkisins en þeirra eigin innlánsreikningum? Flest erum við minnug ráðlegginga bankanna um að fjárfesta í peningamarkaðssjóðunum, alveg fram á síðustu stundir bankahrunsins haustið 2008.

Ingólfur H. Ingólfsson, fjármálaráðgjafi hjá Spara.is, segir það almenna klisju að skuldabréfasjóðir séu vænlegur kostur fyrir þá sem vilja freista þess að fá hærri ávöxtun en á bankareikningum. Helst geti hann mælt með hlutdeild í skuldabréfasjóði til lengri tíma.

Ingólfur segist hins vegar gefa lítið fyrir söluræður bankamanna þessa dagana um að sparifjáreigendur eigi að setja peninga sína í skuldabréfasjóði. Sjóðirnir hafi tapað miklum peningum undanfarið og séu eins og „þurrir svampar að draga til sín sparifé landsmanna.“

Í ljósi hruns hlutabréfamarkaðar hér og ávöxtunar ríkisskuldabréfa síðustu misserin er í sjálfu sér ekki óeðlilegt að mælt sé með kaupum á slíkum bréfum. Ávöxtunin hefur hins vegar verið sveiflukennd undanfarna mánuði, hún hækkaði talsvert í ágúst sl. en hefur að mestu leyti gengið til baka í kjölfar lækkana á stýrivöxtum Seðlabankans. Á sama tíma hafa vextir á innlánsreikningum lækkað og nú munar ekki svo miklu á þeim og ávöxtunarkröfu verðtryggðra og óverðtryggðra ríkisskuldabréfa.

Þannig er ávöxtunarkrafa verðtryggðra ríkisskuldabréfa nú á bilinu 2,5% til 3,3% og óverðtryggðra bréfa frá 4% til 6%. Algengir vextir á verðtryggðum innlánsreikningum bankanna eru frá 2,85% til 3,15% en vextir á óverðtryggðum reikningum eru frá 3,9% til 4,75%, miðað við 10 milljóna kr. inneign.

Ríkisskuldabréfin eru sveiflukenndari en hefðbundnir innlánsreikningar og hætt við að ávöxtun ríkisbréfa haldist áfram lág í sögulegu samhengi, aðallega vegna gjaldeyrishafta Seðlabankans, lækkandi stýrivaxta og skorts á framboði tryggra fjárfestingakosta.

Hættuleg þróun

Vilhjálmur Bjarnason, framkvæmdastjóri Samtaka fjárfesta, segist almennt ekki mæla með sérstökum fjárfestingakostum umfram aðra. Sjálfur geymir hann sitt sparifé á bankareikningum. Á óvissutímum sé hins vegar auðvelt að mæla með ríkisskuldabréfum, spurningin sé bara hvernig bönkunum reiðir af. „Það er binding á báðum stöðum og aldrei er hægt að mæla gegn ríkisskuldabréfum nema að það sé augljóst að ríkið ætli ekki að standa við sínar skuldbindingar. Annars hef ég stundum sagt við fólk að kaupa bara rauðvín. Það hefur ánægju af því að lokum.“

Vilhálmur telur það hættulegt fyrir samfélagið að leiðast inn á þá braut að ríkisskuldabréf séu eini fjárfestingarkosturinn. Hlutabréfamarkaðurinn sé steindauður og ekkert traust þar ríkjandi. Það sé einnig vantraust á bankana að þeir hvetji til fjárfestinga í ríkisskuldabréfum. „Við lifum ekki á ríkisskuldabréfum heldur á framleiðslu.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK