Byggðastofnun hefur þurft að afskrifa 322 milljónir króna vegna láns sem stofnunin veitti fyrirtækinu Hesthólum ehf., en það á og rekur reiðhöll og aðstöðu á Hólum í Hjaltadal.
Lánið er í japönskum jenum og stóð í 644 milljónum um mitt þetta ár. Byggðastofnun hefur fært lánið niður um 50% eða 322 milljónir. Tekjur félagsins eru af leigu á básum og aðstöðu í reiðhöllinni til Hólaskóla og nemenda skólans. Í skýrslu Ríkisendurskoðunar segir að vegna gengisfalls krónunnar standi tekjur félagsins ekki að fullu undir afborgunum lána. Byggðastofnun hefur brugðist við þessu með því að lengja lánstímann og semja um fasta árlega afborgun.