Lögmenn Hannesar Smárasonar segja, að skjöl sem slitastjórn Glitnis lagði í byrjun nóvember fyrir rétt í Manhattan þar sem skaðabótamál Glitnis á hendur sjö einstaklingum er rekið, bendi frekar til þess að Katrín Pétursdóttir, frekar en Hannes, hafi beitt sér innan Glitnis banka varðandi lánveitingar.
Meðal skjalanna sem slitastjórnin lagði fram var minnisblað, sem gert var í september 2007 um samkomulag milli FL Group og Hnotskurnar, fjárfestingarfélags Katrínar Pétursdóttur og Gunnlaugs Sævars Gunnlaugssonar og tengdist sölu Hnotskurnar á bréfum í Tryggingamiðstöðinni til FL Group.
Þar segir að FL Group muni hlutast til um að Glitnir klári samkomulag við Hnotskurn um losun á 250 milljónum á morgun en Hnotskurn hafi verið í viðræðum um þau viðskipti við Glitni.
Hannes og Katrín skrifa undir minnisblaðið en Katrín sat á þessum tíma í stjórn Glitnis. Í greinargerð lögmanna Hannesar segir m.a. að sú staðreynd að stjórnarmaður í Glitni skrifi undir skjalið bendi til þess að Katrín hafi beitt sér innan bankans varðandi lánamálin, ekki Hannes. Hins vegar hafi slitastjórnin ekki ákveðið að stefna Katrínu í skaðabótamálinu þótt hún hafi haft lagalegar skyldur gagnvart bankanum.
Meðal annarra gagna, sem lögð hafa verið fyrir réttinn í vikunni er greinargerð frá lögmönnum Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, Ingibjargar Pálmadóttur, Þorsteins Jónssonar, Lárusar Welding og Jóns Sigurðssonar þar sem segir, að þau gögn sem slitastjórnin hefur lagt fram varpi í raun enn skýrara ljósi á að um sé að ræða íslenska deilu sem eigi að vísa frá dómnum.