Áætlanir, sem bankarnir settu sér í upphafi árs 2009 um endurskipulagningu á lánasöfnum, hafa ekki gengið eftir en slík endurskipulagning er mikilvægur þáttur í endurreisn bankanna. Fram kemur í nýrri ársskýrslu Fjármálaeftirlitsins, að stofnunin hafi af þessu töluverðar áhyggjur.
Í skýrslunni segir, að hlutfall stærri fyrirtækja lána, sem eru yfir 100 milljónir að kröfuvirði, hafi miðað við bókfært virði útlánaflokksins farið úr 5% frá október 2009 upp í 26% í ágúst 2010. Hvað varðar smærri fyrirtæki hefur hlutfallið lækkað úr 13% niður í 10%.
Hlutfall lána sem búið er að endurskipuleggja hjá einstaklingum með lán yfir 100 milljónir hefur farið úr 6% upp í 14% en hlutfall endurskipulagðra lána hjá einstaklingum með lægri lán hefur farið úr 15% upp í 28%.
Fjármálaeftirlitið segir, að þótt bankarnir séu búnir að endurskipuleggja töluverðan hluta lánasafnsins hafi lánum í vanskilum eða frystingu ekki fækkað mikið. Það skýrist af því að á sama tíma og bankarnir voru að endurskipuleggja lánasöfn sín fækkaði þeim útlánum sem voru í skilum án endurskipulagningar
Hlutfall stærri fyrirtækjalána í vanskilum eða frystingu hefur farið úr 49% frá október 2009 niður í 43% í ágúst 2010. Hvað varðar smærri fyrirtæki hefur hlutfallið lækkað úr 46% niður í 36%. Hlutfall lána, sem eru í vanskilum eða frystingu hjá einstaklingum með stærri lán, hefur farið úr 61% upp í 71% og hvað varðar einstaklinga með minni lán hefur hlutfall lána í vanskilum eða frystingu farið úr 23% upp í 29%.