Ísland getur endurheimt orðsporið

Andrew Ward
Andrew Ward

Dæmi eru um að ríki, og orðspor þeirra erlendis, geti jafnað sig á fjármálakreppum, að sögn Andew Ward, blaðamanns á Financial Times. Í ræðu sinni á ráðstefnu FME í dag benti hann á að Suður-Kórea og Svíþjóð hefðu bæði gengið í gegnum alvarlegar kreppur fyrir ekki svo löngum tíma. Kórea er nú komin í G20 hóp helstu iðnríkja heims og Svíþjóð er öðrum Evrópuríkjum fyrirmynd um ábyrgan ríkisrekstur.

Það er því alls ekki vonlaust verkefni að endurreisa orðspor Íslands í augum útlendinga, að mati Ward, en það er að sama skapi ekki sjálfsagt.  Margt þarf að gera, meðal annars að endurskipuleggja fjármálakerfið og koma böndum á ríkisreksturinn. Þá þarf að leysa Icesave deiluna með einhverjum hætti. Segir Ward að staða Íslands sé líklega betri en ætla mætti af lestri frétta, en slæmar fréttir, pólitískar deilur, ákærur á ráðherra og annað slíkt er betra fréttaefni en góðar fréttir.

Verður að byggja upp atvinnulífið 

Ward segir að grundvallaratriði sé að byggja upp atvinnulífið, bæði með því að hlúa að þeim atvinnuvegum sem eru til staðar, en einnig með því að reyna að koma á laggirnar nýjum atvinnuvegum.

Hér er margt að finna sem ætti að öllu jöfnu að laða að erlenda fjárfesta, en að sögn Wards óttast þeir pólitíska áhættu hér og halda því að sér höndum. Hann sagði að lokum að mótmæli, umdeildir dómar, ákærur og pólitískar deilur um fjölda mála sé allt merki um að Ísland sé heilbrigt lýðræðissamfélag, en þegar þessir þættir séu teknir saman verði til ímynd um samfélag sem sé að einhverju leyti óútreiknanlegt og óábyrgt. Það sé ekki til þess fallið að draga úr ótta erlendra fjárfesta.

Sagði hann að fyrir blaðamann væri Ísland mjög áhugavert og skemmtilegt land, en hugsanlega ættu Íslendingar að velta fyrir sér hvort rólegri, og jafnvel leiðinlegri tilvera sé ekki heppilegri til lengri tíma litið.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK