Talsmaður írska fjármálaráðuneytisins hefur viðurkennt að viðræður fari nú fram milli írskra stjórnvalda og Evrópusambandsins um ástand ríkisfjármála á Írlandi. Hann ítrekaði hins vegar það sem írska stjórnin sagði um helgina, að Írar hefðu ekki óskað eftir fjárhagsaðstoð frá ESB og að írska ríkið sé fjármagnað að fullu vel inn í næsta ár. Er sagt frá þessu á fréttavef Bloomberg.
Fjármálaráðherrar evrusvæðisins munu hittast í Brussel á morgun og munu ræða meðal annars tillögur þýskalandskanslara, Angelu Merkel, um að komið verði á fót kerfi, þar sem fjárfestar borgi fyrir björgunaraðgerðir í framtíðinni. Í frétt Bloomberg segir að aðrir ráðherrar væru líklegri til að taka vel í þessar tillögur ef írski vandinn er leystur og fjárfestar þannig róaðir.
Álag á írsk ríkisskuldabréf hefur hækkað það sem af er degi og er ávöxtunarkrafan á tíu ára írsk bréf 8,16 prósent. Til samanburðar er krafan á sambærileg íslensk ríkisskuldabréf innan við sex prósent.
Írska bankakerfið er laskað eftir hrun írska fasteignamarkaðarins og hafa þurft að reiða sig í síauknum mæli á evrópska seðlabankann um fjármögnun.