Nýju bankarnir keyptu fyrirtækjalán af gömlu bönkunum á að meðaltali um 40% af kröfuvirði við yfirfærslu frá gömlu bönkunum. Afföllin voru því um 1600 milljarðar króna miðað við upphaflegan efnahagsreikning bankanna þriggja.
Þetta kemur fram í svari efnahags- og viðskiptaráðherra á Alþingi við fyrirspurn frá Ásbirni Óttarssyni, þingmanni Sjálfstæðisflokksins.
Þar segir einnig, að nýju bankarnir hafi keypt húsnæðislán að meðaltali á 72% af kröfuvirði við yfirfærslu frá gömlu bönkunum. Afföllin hafi því verið samtals 90 milljarðar króna miðað við upphaflegan efnahagsreikning nýju bankanna þriggja.
Um þriðjungur húsnæðislána bankanna varð eftir í gömlu bönkunum við hrun bankakerfisins í október 2008.