Kanadíska fyrirtækið Magma
Energy Corp sem á HS Orku í gegnum sænskt dótturfélag, íhugar að selja allt að 25% hlut í HS Orku til innlendra fjárfesta. Þetta kom fram í máli forstjóra Magma, Ross Beaty, í dag er hann kynnti afkomu félagsins á símafundi með fjárfestum.
Hann segir að Magma sækist ekki eftir því að hagnast á sölunni en hefur fremur áhuga á að fá rétta gerð fjárfestis að félaginu, samkvæmt frétt Reuters.
Að sögn Beaty ætlar Magma að fá hluthafa að félaginu sem fer með minnihluta hlutafjár, hvort sem það er 10, 20 eða 25%. Hann metur það svo að það sé ekki einungis gott fyrir Magma heldur einnig fyrir Ísland og muni nýtast vel til þess að lægja þær pólitísku öldur sem hafa verið uppi á Íslandi. Greint er frá þessu í frétt Reuters.
Þar kemur fram að salan muni hjálpa Magma við fjármögnun á yfirtöku á HS Orku sem kostar félagið um 250 milljónir dala fyrir utan yfirtöku skulda.