Bresk stjórnvöld hafa hafnað beiðni yfir 400 innistæðueigenda í útibúi Landsbankans á Ermarsundseyjunni Guernsey um að fá bætur úr tryggingarsjóði breskra innistæðueigenda.
Fram kemur á vef breska blaðsins Daily Telegraph, að 433 innistæðueigendur hafi skrifað undir bænarskjal þar sem bresk stjórnvöld eru beðin um að styðja breska viðskiptavini Landsbankans á Guernsey.
Í svari breskra stjórnvalda er því hins vegar lýst yfir, að vegna þess að Landsbankinn á Guernsey hafi ekki verið dótturfélag bresks banka heldur íslensks fyrirtæki hafi fjármálaeftirlitið á Guernsey átt að hafa eftirlit með útibúinu. Það sé því á ábyrgð stjórnvalda þar að koma til móts við sparifjáreigendur, sem töpuðu fé við fall Landsbankans.
Um þriðjungur þeirra, sem áttu innistæður í Landsbankanum á Guernsey, býr ekki í Bretlandi. Segjast þeir ekki hafa átt annan kost en að geyma sparifé sitt hjá erlendri bankastofnun þar sem breskir stórbankar heimili ekki Bretum, sem eru búsettir í öðrum löndum, að eiga bankareikninga.
Sparifjáreigendur hjá Landsbankanum á Guernsey áttu alls 117 milljónir punda á reikningum þar. Þegar bresk stjórnvöld lýstu því yfir að þau myndu ábyrgjast innistæður á bankareikningum að fullu náði það ekki til íbúa eyjanna Guersney, Jersey og Manar, sem eru bresk sjálfstjórnarsvæði.