Greining Íslandsbanka segir að aukin svartsýni Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD) varðandi efnahagsmálin á Íslandi komi ekki á óvart enda hafi efnahagsbatinn hér á landi dregist á langinn. OECD reiknar nú með því að samdrátturinn verði bæði dýpri og viðsnúningurinn hægari hér á landi en stofnunin reiknaði með fyrr á árinu.
Reiknar stofnunin með því að samdrátturinn verði 3,6% í ár og að hagvöxturinn verði 1,5% á næsta ári.
OECD er heldur svartsýnni á árið en Seðlabanki Íslands sem reiknar með samdrætti upp á 2,6% árinu. Á hinn bóginn er spá OECD í takti við spá hagdeildar Alþýðusambands Íslands (ASÍ) sem reiknar með 3,7% samdrætti í ár.
Á næsta ári reiknar OECD með hagvexti upp á 1,5% sem er hægari uppsveifla en Seðlabankinn reiknar með en bankinn spáir 2,1% hagvexti á næsta ári og er spá OECD aftur meira í takti við spá ASÍ sem hljóðar upp á 1,7% hagvöxt.
Á árinu 2012 reiknar OECD með því að íslenska hagkerfið taki ágætlega við sér og spáir hagvexti upp á 2,6% sem er í takti við 2,7% spá SÍ en nokkuð bjartsýnni en 1,7% spá ASÍ.
„Af tölum OECD er nokkuð ljóst að kreppan hér á landi er bæði mun dýpri og lengri en í öðrum aðildarríkjum OECD. Þannig spáir stofnunin að hagvöxtur verði að meðaltali 2,8% innan aðildarríkjanna í ár og 2,3% á næsta ári.
Mjög mismunandi er hvernig horfir í efnahagsmálum innan aðildarríkjanna og ætti ekki að koma á óvart að OECD reiknar með að samdrátturinn verði mestur í Grikklandi. Þannig gerir OECD ráð fyrir 3,9% samdrætti í Grikklandi á árinu og svo 2,7% samdrætti til viðbótar á því næsta. Þess má geta að Grikkland er eina ríkið þar sem stofnunin spáir meiri samdrætti í ár en á Íslandi, en á móti kemur að mun meiri samdráttur var hér á landi á síðasta ári en hjá Grikkjum, eða 6,8% á móti 2,3%.
OECD reiknar einnig með að landsframleiðsla muni dragast saman á árinu á Írlandi og svo á Spáni, eða um 0,3% og 0,2%, en reiknar með hagvexti í öðrum aðildarríkjum. Atvinnuleysi eykst á næsta ári Að mati OECD verður atvinnuleysi hér á landi 7,5% í ár og 8,1% á næsta ári. Þannig að ólíkt öðrum stofnunum þá reiknar OECD með að atvinnuleysi komi til með að verða meira á næsta ári en þetta árið og er því ljóst að stofnunin er nokkuð svartsýnni á atvinnuástandið en aðrar. Þess má geta að stofnunin notar samræmda mælikvarða á atvinnuleysi milli landa og eru ofangreindar spár því ekki samanburðarhæfar við spár SÍ eða ASÍ um atvinnuleysi.
Á árinu 2012 reiknar OECD svo með því að atvinnuleysi fari niður í 7,5%. Engu að síður er atvinnuleysi nokkuð minna á árinu en að meðaltali innan ríkja OECD en verður svo svipað næstu tvö árin. Þannig spáir stofnunin að atvinnuleysi verði að meðaltali 8,3% ríkjum OECD í ár, 8,1% á því næsta og 7,5% árið 2012.
Útlitið í þessum efnum er enn dekra þegar litið er yfir evrusvæðið en þar reiknar OECD með 9,9% atvinnuleysi í ár og svo 9,6% og 9,2% á næstu tveimur árum. Lítil verðbólga á næstu árum Líkt og aðrar stofnanir reiknar OECD með því að verðbólgan hjaðni verulega og er spáin í takti við aðrar spá hvað það varðar.
Hljóðar spáin upp á 5,3% verðbólgu í ár, fari svo niður í 1,8% á því næsta og 1,6% árið 2012. SÍ gerir ráð fyrir 5,4% verðbólgu á árinu og svo 1,9% á næstu tveimur árum. Jafnframt er þetta mun minni verðbólga en stofnunin hafði reiknað með í maí og er því orðinn minni munur á verðbólgutölum hér á landi og öðrum ríkjum OECD.
Má hér nefna að stofnunin reiknar með að verðbólga verði að meðaltali 1,5% á evrusvæðinu í ár, 1,3% á því næsta og 1,2% árið 2012. Að lokum má geta að spá OECD er í samræmi við okkar spá um verðbólgu hérlendis á árinu en við reiknum þó með ívíð meiri verðbólgu á næsta ári. Þannig reiknum við með að verðbólgan verði að meðaltali 5,5% í ár og 2,3% á því næsta.