Margt líkt með Íslandi og Írlandi

Fjármálaráðuneyti Írlands
Fjármálaráðuneyti Írlands Reuters

Margt er líkt með aðdrag­anda erfiðleika Íslands og Írlands, en viðbrögð stjórn­valda við áfall­inu - og þá sér í lagi erfiðleik­um bank­anna - hafa verið um margt ólík, seg­ir í vef­riti efna­hags- og viðskiptaráðuneyt­is­ins.

Tví­burakreppa hér en bankakreppa á Írlandi

Sama dag og ís­lenska ríkið yf­ir­tók Glitni, 29. sept­em­ber 2008, til­kynnti fjár­málaráðherra Írlands, Bri­an Leni­h­an, um það sem hann kallaði ódýr­ustu björg­un­araðgerð banka í sög­unni. Nú tveim­ur árum síðar er ljóst að björg­un­in verður dýr­ari en nokk­ur bjóst við, seg­ir í vef­rit­inu.

„Veru­legt ójafn­vægi byggðist upp í hag­kerf­um Íslands og Írlands á ár­un­um fyr­ir hrun með hratt hækk­andi raun­gengi og mikl­um viðskipta­halla. Skuld­setn­ing hag­kerf­anna og hraður vöxt­ur og umbreyt­ing banka­kerfa, sem er eitt ein­kenni fjár­málakreppa um all­an heim, var knú­inn áfram af ódýru fjár­magni.

Aukið láns­fjár­magn skilaði sér í miklu fram­boði af hús­næðislán­um með hækk­andi veðsetn­ing­ar­hlut­falli og minni kröf­um til lán­taka, sem var meðal or­saka fast­eigna­bólu í báðum ríkj­un­um. At­vinnu­leysi jókst, skuld­ir hækkuðu, lands­fram­leiðsla dróst sam­an, fast­eigna­verð lækkaði og mörg heim­ili sátu uppi með yf­ir­veðsett hús­næði.

Staða Íslands og Írlands er ólík. Ísland stend­ur frammi fyr­ir banka- og gjald­eyri­skreppu, svo­kallaðri tví­burakreppu, á meðan vand­ræði Íra nú eru fyrst og fremst af­leiðing bankakreppu.

Helsta mun­inn á viðbrögðum írskra og ís­lenskra stjórn­valda má finna í ólík­um viðbrögðum við fallandi banka­kerfi," seg­ir í vef­riti ráðuneyt­is­ins.

Neyðarlög hér en ótak­mörkuð rík­is­ábyrgð þar

Á Íslandi voru sett neyðarlög, sem gerðu stjórn­völd­um kleift að skilja er­lend­ar skuld­ir og eign­ir eft­ir í gjaldþrota bönk­um og stofna nýja á grunni þeirra. Tryggt var að inn­lend banka­starf­semi héldi áfram, enda er starf­hæf­ur fjár­mála­markaður ein lyk­il­for­senda hag­vaxt­ar í þróuðum hag­kerf­um. Í kjöl­farið mótuðu stjórn­völd efna­hags­áætl­un í sam­starfi við AGS, með áherslu á að tryggja stöðug­leika í gjald­eyr­is­mál­um, ábyrg rík­is­fjár­mál og varðstöðu um vel­ferðar­kerfið.

Á Írlandi voru viðbrögðin af öðrum toga. Írsk stjórn­völd gáfu út ótak­markaða rík­is­ábyrgð á inni­stæður (e. blan­ket guar­an­tee) og skuld­bundu sig til að veita bönk­un­um fjár­hags­leg­an stuðning. Ríkið tók þar með fulla ábyrgð á bönk­un­um svo að erfiðara er að skilja á milli erfiðleika bank­anna og rík­is­sjóðs. Óviss­an um end­ur­fjármögn­un bank­anna og getu rík­is­ins til þess að standa við þær skuld­bind­ing­ar sín­ar eru helstu ástæður þess að írska krepp­an hef­ur dreg­ist á lang­inn og stjórn­völd leita til AGS nú, tveim­ur árum á eft­ir Íslandi.

Evr­an set­ur Írum skorður

„Upp­gang­ur írska hag­kerf­is­ins leiddi að miklu leyti af aðild að evr­ópska efna­hags­svæðinu og upp­töku evr­unn­ar. Evr­an set­ur Írum hins veg­ar nokkr­ar skorður nú þar sem aðlög­un hag­kerf­is­ins get­ur ekki orðið í gegn­um geng­is­lækk­un líkt og orðið hef­ur á Íslandi. Aðlög­un hag­kerf­is­ins, með lækk­andi raun­gengi, verður því í meira mæli að koma fram í gegn­um vinnu­markaðinn með lækk­un launa og auknu at­vinnu­leysi.

Á Íslandi er gjör­ólík skip­an gjald­eyr­is­mála, þar sem laun fólks eru í óverðtryggðum krón­um og skuld­ir að mestu í verðtryggðum krón­um eða tengd­ar er­lend­um gjald­miðlum. Sam­hliða lækk­andi hús­næðis­verði hef­ur þetta valdið hratt hækk­andi greiðslu­byrði og versn­andi eigna­stöðu. Fall krón­unn­ar olli mikl­um erfiðleik­um fyr­ir heim­il­in. Hag­kerfið er enn í fjötr­um gjald­eyr­is­hafta vegna hins veika gjald­miðils og hætt við að kostnaður vegna þeirra áger­ist sí­fellt eft­ir því sem tím­inn líður.

Á Írlandi hins veg­ar eru laun fólks og skuld­ir að mestu í sömu mynt, evr­unni. Lán írskra heim­ila hafa því ekki stökk­breyst á sama hátt og á Íslandi en lækk­un hús­næðis­verðs og hratt hækk­andi at­vinnu­leysi hafa, líkt og á Íslandi, komið mörg­um írsk­um heim­il­um í vanda," seg­ir í vef­rit­inu, sem hægt er að lesa í heild hér



mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK