Greining Íslandsbanka vekur athygli á, að lánshæfiseinkunnir Evrópuríkja, sem lent hafa í fjárhagsvanda að undanförnu stangast á við skuldatryggingarálagið sem er á skuldabréfum ríkjanna.
Skuldatryggingarálag á grísk ríkisskuldabréf var í gær 1006 punktar, álagið á írsk bréf 527 punktar, á portúgölsk bréf 458 punktar, á spænsk ríkisskuldabréf 282 punktar og á íslenska ríkið var álagið 275 punktar. Hefur fimm ára álagið á íslensk ríkisskuldabréf haldist samfellt undir 300 punktum frá 12. október.
Íslandsbanki segir, að sé tekið einfalt meðaltal lánshæfiseinkunna þessara ríkja á erlendum langtímaskuldbindingum hjá þeim fjórum matsfyrirtækjum sem meta lánshæfi ríkissjóðs Íslands, þ.e. Moody´s, Fitch, Standard & Poors (S&P) og japanska fyrirtækinu R&I, komi í ljós að þessi tveir mælikvarðar á áhættu eru á öndverðum meiði um innbyrðis lánshæfisáhættu ríkjanna.
Þannig sé meðallánshæfiseinkunn Spánar hæst (Aa1/AA+), þar á eftir kemur lánshæfiseinkunn Írlands (Aa3/AA-) og þriðja í röðinni er einkunn Portúgals (A3/A+). Ljóst sé að matsfyrirtækin meti stöðu Íslands svipaða og Grikklands en þessi tvö ríki séu með tvær einkunnir í svokölluðum spákaupmennskuflokki og svo tvær í lægsta þrepi fjárfestingarflokks.
„Þó er ljóst að þessi samanburður gæti tekið töluverðum stakkaskiptum á næstunni enda er lánshæfismat þessara ríkja í flestum tilfellum á neikvæðum horfum hjá matsfyrirtækjunum. Nú síðast í gær setti matsfyrirtækið Moody´s lánshæfiseinkunn Írlands til skoðunar vegna mögulegrar lækkunar og að sögn fyrirtækisins er ekki ólíklegt að hún verði lækkuð niður um nokkra flokka. Jafnframt má nefna hér að í síðustu viku kom fram í frétt á Bloomberg að farsæl lausn Icesave-málsins gæti leitt til þess að einkunn Ríkissjóðs Íslands hjá Moody´s yrði hækkuð sem væri mjög jákvætt fyrir landið. Er þetta í samræmi við það sem matsfyrirtækin Fitch og S&P hafa margítrekað og verður spennandi að sjá hver viðbrögð fyrirtækjanna verða ef niðurstaða fæst loksins á Icesave-deilu íslenskra stjórnvalda við hin bresku og hollensku," segir í Morgunkorni Íslandsbanka.