Skuldatryggingarálag á skuldabréf spænska ríkisins til tíu ára hefur rokið upp í morgun og er nú 2,51% hærra heldur en vextir á evrusvæðinu eru. Er álagið komið yfir 5% og hefur það ekki gerst síðan árið 2002. Virðist þetta benda til þess að fjárfestar telji að nauðsynlegt sé fyrir Spán að leita á náðir Evrópusambandsins varðandi björgun.
Þetta er ískyggileg þróun þar sem Spánn er fjórða stærsta hagkerfið innan evrusvæðisins og er það stærra en það gríska, írska og portúgalska en þau lönd hafa átt í mestum erfiðleikum að undanförnu. Grikkir og Írar hafa þegar leitað á náðir ESB og Alþjóða gjaldeyrissjóðsins og þykir víst að Portúgalar leiti á sömu mið eftir aðstoð.