Jón Ásgeir Jóhannesson, fyrrverandi stjórnarformaður og aðaleigandi Baugs, segir að málsókn slitastjórnar Glitnis á hendur honum og fleiri sé gerð til þess að koma honum og fleiri einstaklingum fjárhagslega á kné. Þetta kemur fram í greinargerð lögmanns Jóns Ásgeirs, Gests Jónssonar, sem lögð var fyrir Héraðsdóm Reykjavíkur í september.
Greinargerðin er lögð fram vegna þess máls sem slitastjórnin rekur á hendur Jóni Ásgeiri, Lárusi Welding, Magnúsi Arnari Arngrímssyni, Pálma Haraldssyni, Rósant Má Torfasyni og Guðnýju Sigurðardóttur. „Svo virðist sem bera eigi stefndu fjárhagslegu ofurliði í málinu, enda verður ekki séð að annar tilgangur geti verið fyrir málsókninni,“ segir meðal annars í greinargerðinni. Glitnir krefst sex milljarða skaðabóta frá sexmenningunum, en málsóknin snýst aðallega um sex milljarða króna lánveitingu til félags í eigu Fons, FS 38 ehf.
Jón Ásgeir hafnar því að hann hafi haft þau tök á rekstri Glitnis sem lýst er í stefnu slitastjórnar bankans. Að vísu kemur fram að hann hafi „oft verið hafður með í ráðum, þegar ákvarðanir voru teknar um málefni fyrirtækja sem Baugur átti beint eða óbeint í.“ Einnig segir að Jón Ásgeir hafi haft eitthvað um það að segja að Lárus Welding hafi verið ráðinn bankastjóri í apríl 2007. Hins vegar hann alls ekki verið einráður um þá ráðstöfun, en Hannes Smárason og Jón Sigurðsson eru meðal annars sagðir hafa komið að þeirri ákvörðun. Jón Ásgeir hafnar því jafnframt að stjórnarmennirnir Kristín Edwald og Sigurður G. Guðjónsson hafi verið á hans vegum í stjórn bankans, „enda kosin á hluthafafundi bankans.“
Þess má geta að Sigurður G. Guðjónsson er lögmaður fyrir Jón Ásgeir í fjölda mála sem eru rekin fyrir íslenskum dómstólum þessa dagana. Kristín Edwald flytur jafnframt mál fyrir hönd Gaums, félags í 45% eigu Jóns.
Hvað varðar lánið til FS 38 segist Jón Ásgeir ekki hafa komið að ákvörðun vegna þess láns. Lánið var notað til að kaupa hlutabréf í skartgripakeðjunni Aurum á meintu yfirverði. Jón Ásgeir rekur engu að síðu í stefnu sinni að lánið hafi verið veitt til að bæta tryggingastöðu Fons gagnvart bankanum, á sama tíma og Fons fékk nýtt tveggja milljarða lán.
„Stefndi byggir á því að uppgreiðsla á ótryggðum skuldum við
bankann með lánveitingunni geti ekki talist til tjóns bankans, enda
felur ákvörðunin í raun ekki annað í sér en framlengingu á lánum Fons,“
segir í greinargerðinni.