Rozwadowski: Einkaneysla mun ekki standa undir hagvexti

Franek Rozwadowski, sendifulltrúi AGS á Íslandi.
Franek Rozwadowski, sendifulltrúi AGS á Íslandi. Heiðar Kristjánsson

Franek Rozwadowski, sendifulltrúi Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á Íslandi, segir að framlag einkaneyslu til hagvaxtar hér á landi verði hverfandi á næstu árum. Hagvaxtarspár Seðlabanka Íslands og Hagstofunnar gera hinsvegar ráð fyrir að einkaneysla komi til með standa undir þeim litla hagvexti sem þessar stofnanir spá að verði á næsta ári.

Rozwadowski hélt erindi á fundi Íslenskra verðbréfa um endurreisn íslenska hagkerfisins í morgun. Í máli hans kom fram sú skoðun að á næstu árum þurfi að mynda hagvöxt sem byggist upp á útflutningsiðnaði. Skuldsetning takmarki verulega framlag ríkisumsvifa, fjárfestingar og einkaneyslu til hagvaxtarins.

Hann benti á að skuldsetning heimilanna geri það að verkum að þau þurfi að auka sparnað á kostnað neyslu á næstu árum og þar af leiðandi sé ekki hægt að búast við miklu framlagi einkaneyslunnar til hagvaxtar. Ríkissjóður, sem kunnugt er, er að draga saman seglin til þess að koma böndum á skuldavanda hins opinbera og skuldsetning og skaddaður efnahagsreikningur fyrirtækjanna komi í veg fyrir fjárfestingu.

Ummæli Rozwadowski um heimilin og einkaneyslu vekja sérstaka athygli í ljósi nýlegra hagvaxtarspáa Seðlabanka Íslands og Hagstofunnar. Samkvæmt þessum stofnunum mun um tveggja prósenta hagvöxtur verða á næsta ári vegna vaxandi einkaneyslu. Eins og fram kom í umfjöllun Morgunblaðsins um endurskoðaða þjóðhagsspá Hagstofunnar á dögunum þá byggja sérfræðingar stofnunarinnar spá sína á því að fyrirhugaðar breytingar stjórnvalda á reglum um útgreiðslu séreignasparnaðar munu leiða til þessarar aukningar á einkaneyslu og duga til að vega á móti neikvæðum áhrifum skuldastöðu heimilanna, atvinnuleysis og skattahækkana. Ljóst er að þessi forsenda hvílir á umtalsverðri óvissu en sem dæmi má nefna er ekki hægt að útiloka að þeir sem hafi mest þurft á séreignasparnaðnum að halda eftir bankahrun hafi nú þegar gengið á hann. Þar af leiðandi verði áhrif þessarar rýmkunar á reglunum á einkaneyslu hverfandi.

Gangi spár Seðlabankans og Hagstofunnar eftir og hagvöxtur verði drifinn áfram af einkaneyslu í krafti minni sparnaðar á næsta ári má jafnframt velta því fyrir sér hvaða áhrif það muni hafa á lengri tíma hagvaxtarhorfur. Eðli málsins samkvæmt myndi slík þróun tefja nauðsynlega aukningu sparnaðar heimila til að draga úr skuldsetningu og þar af leiðandi yrði enn lengri töf á því að hagkerfið færðist nær jafnvægi.


mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK