Fjármálaráðherrar Evrópusambandsins hittust í Brussel dag til þess að ná samkomulagi um ákvæði 85 milljarða evra lánasamnings við Íra. Deilt er um vaxtakjör lánsins en aðstoðin er talin nauðsynleg til þess að koma í veg fyrir að vandræði Íra breiðist út til hinna landanna á evrusvæðinu. Sérfræðingar segja að Spánn og Portúgal standi sérstaklega höllum fæti í því samhengi.
„Við eigum enn eftir að afgreiða og fara yfir aftur nokkur smáatriði, sérstaklega varðandi vextina,“ sagði Christine Lagarde, fjármálaráðherra Frakklands þegar hún kom til fundarins.
Fréttir fjölmiðla um að Írar gætu verið krafðir um 6,7% vexti yfir níu ára tímabil hafa vakið reiði stjórnvalda í Dyflinni. Sú vaxtaprósenta væri töluvert hærri en þau 5,2% sem Grikkir fengu á 110 milljarða evra björgunarpakka sínum fyrr í ár og segir írski fjármálaráðherrann Brian Lenihan að það væri óviðunandi. Tafðist hann á leið sinni á fundinn vegna veðurs.
Lagarde sagði hins vegar að að björgunarpakki Írlands væri nánast frágenginn og að samningaviðræðum væri að ljúka. Bráðabrigðasamkomulag hafði náðst í alþjóðlegum umræðum í Dyflinni áður en samkvæmt því áttu 35 milljarðar evra að renna til bankakerfis landsins sem er í rústum.
Í gær fóru fram fjöldamótmæli á götum Dyflinnar gegn niðurskurðaráformum írskra stjórnvalda og sýna skoðanakannanir að meirihluti Íra telji að landið ætti að frekar að standa ekki í skilum við skuldir sínar en að gangast undir afarkosti.
Portúgal og Spánn næst?
Ljóst er að afleiðingar fjármálahrunsins í Írlandi fyrir viðkvæm hagkerfi eins og Portúgal og Spán eru ofarlega í forgangsröð fundarins í dag og sagði Olli Rehn, framkvæmdastjóri efnahags- og gjaldeyrismála innan ESB, að bregðast þyrfti við víðari áhrifum krísunnar.
„Við verðum að ræða kerfislæg viðbrögð við neyðarástandinu. Við stöndum frammi fyrir grafalvarlegri stöðu. Við verðum að gera okkar besta til þess að verja grundvöll efnahagsbata og atvinnu,“ sagði Rehn.
Belgíski fjármálaráðherrann Didier Reynders sagði að evrusvæðið yrði að bregðast við og verja mynt sína. „Við verðum að grípa til allra ráða sem gera okkur kleift að standa af okkur óveðrið,“ sagði hann.
Elena Salgado, spænski ráðherrann, sagði að hún væri aðeins á fundinum til þess að ræða Írland þegar hún stóð frammi fyrir spurningum um ástand mála í heimalandi sínu.