Væntingavísitala Gallup hækkar um 19 stig milli október og nóvember og gekk því mikil lækkun, sem varð í október, að hluta til baka.
Vísitalan mælist nú 50,6 stig en hún mælir væntingar neytenda til efnahags- og atvinnulífsins. Þegar vísitalan er undir 100 stigum eru fleiri neytendur svartsýnir en bjartsýnir.
Allar undirvísitölur Væntingavísitölunnar hækkuðu á milli október og nóvember öfugt við það sem átti sér stað á milli september og október. Fram kemur í Morgunkorni Íslandsbanka, að þótt undirvísitölunnar eigi nokkuð í land með að ná sömu gildum og í september bendi þessi þróun til þess, að væntingar neytenda til núverandi ástands í efnahags- og atvinnumálum jafnt og ástandsins eftir sex mánuði eru meiri nú en fyrir mánuði.
Mest er hækkunin á
væntingum til ástandsins í efnahags- og atvinnumálum eftir 6 mánuði sem
hækka um tæp 29 stig og mælast nú 77,1 stig. Mat á núverandi ástandi
hækkar mun minna, eða um tæp 4 stig og mælist áfram afar lágt, eða 10,8
stig. Breyttar væntingar til ástandsins í efnahags- og atvinnumálum
þjóðarinnar eftir sex mánuði skýrir því hækkun sem varð á
Væntingavísitölunni nú.