Skipti, móðurfélag Símans, eru talin einskis virði í nauðasamningum Exista. Samkvæmt reikningum Skipta er félagið með eiginfjárhlutfall upp á ríflega 20 prósent, en tvær hugsanlegar ástæður eru fyrir þessu svartsýnisverðmati. Önnur er greiðsluáætlun á skuldum Skipta.
Í fréttaskýringu um Skipti í viðskiptablaði Morgunblaðsins í dag segir, að fram komi í ársreikningi fyrir árið 2009 að um 74 milljarðar króna falla á gjalddaga á árunum 2012-2014.
Þegar haft er í huga að heildarskuldir Skipta voru í ársbyrjun um 95 milljarðar króna sést að þetta er stór biti fyrir félag sem rekið var með tapi í fyrra og á fyrstu sex mánuðum þessa árs.
Hin hugsanlega ástæðan fyrir verðmatinu er að óefnislegar eignir Skipta voru í lok júní á þessu ári 62,8 milljarðar króna og þar af var viðskiptavild 59,3 milljarðar. Þýðir það að ríflega helmingur eigna Skipta er viðskiptavild.