Heildarverðmæti útflutts áls nam 186
milljörðum króna fyrstu 10 mánuði þessa árs. Þetta er umtalsverð aukning frá
sama tíma í fyrra er verðmæti útflutts áls nam alls 137 milljörðum króna.
Verðmætaaukningin nemur 49 milljörðum sem er liðlega 35% aukning á milli ára. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Samtökum álframleiðenda á Íslandi.
Stærstur hluti verðmætaaukningar stafar af hækkandi heimsmarkaðsverði á áli, en sem kunnugt er var álverð mjög lágt á síðasta ári, segir jafnframt í tilkynningu.
„Heildarútflutningsverðmæti áls það sem af er ári er þegar orðið talsvert meira en allt síðasta ár, en útflutningsverðmæti áls árið 2009 nam alls um 173 milljörðum króna. Ljóst er að útflutningsverðmæti þessa árs mun slá öll met en heildarverðmæti álútflutnings á þessu ári er þegar orðið meira en 2008, en það ár nam útflutningsverðmæti áls um 183 milljörðum króna og hafði aldrei verið meira," samkvæmt tilkynningu.