Már Guðmundsson, seðlabankastjóri, segir í viðtali við Bloomberg fréttastofuna, að stjórnvöld á Íslandi hafi gert rétt með því að ábyrgjast ekki skuldir föllnu bankanna gagnvart kröfuhöfum þeirra vegna þess hve miklar skuldirnar voru.
Segir hann að eigendur skuldabréfa eigi ekki að treysta á það að ríkistjórnin grípi inn og greiði þeim kröfur sínar. „Þeir eiga að gera sína eigin áreiðanleikakönnun (due diligence)". Már ræddi við Bloomberg fréttastofuna í Frankfurt í Þýskalandi í gær.
Kröfuhafar eru enn að reyna að endurheimta um 85 milljarða Bandaríkjadala sem þeir áttu inni í Kaupþingi, Landsbankanum og Glitni er bankarnir fóru í þrot fyrir meira en tveimur árum. Líkt og fram hefur komið fóru íslensk stjórnvöld aðra leið en þau írsku varðandi bankana. Á Írlandi hafa stjórnvöld dælt fjármagni inn í bankakerfið og hefur kostnaðurinn vegna þess bitnað á skattgreiðendum.
Segir Már að Írar séu að viðurkenna það að ríkið hafi verið of fljótt að samþykkja að bera ábyrgð á bönkunum. Nú séu ábyrgðirnar að verða að þungum byrðum þar sem staða bankanna reyndist vera mun verri en áður var talið.
Í kröfuhafaskýrslu Kaupþings frá 26. nóvember kemur fram að kröfurnar séu 28.167 talsins og hljóða upp á 63 milljarða dala. Gera kröfuhafar í alls 119 löndum kröfu í bú Kauþings.
Már segist ekki hafa gert það upp við sig hvað sé rétt ákvörðun fyrir alla en Ísland hafi ekki átt aðra leið færa. Það verði áhugavert að rannsaka þetta eftir nokkur ár um hvaða leið hafi verið réttust.