Óeining um efnahagsaðgerðir

Angel Merkel, kanslari Þýskalands
Angel Merkel, kanslari Þýskalands ALEX DOMANSKI

Angela Merkel, kanslari Þýskalands, hefur lýst sig andsnúna hugmyndum um stækkun hins 440 milljarða evra neyðarsjóðs sem komið var á laggirnar nýlega til að bjarga þjóðum á evrusvæðinu úr fjárhagsvandræðum. Hún hafnar því jafnframt að Evrópusambandið gefi út „Evrópuskuldabréf.“

Fjármálaráðherrar evruríkjanna 16 funda í Brussel dag vegna ástandsins, sem farið hefur hratt versnandi undanfarnar vikur og mánuði. Merkel fer fyrir stærsta hagkerfi Evrópu, og því vega skoðanir hennar mjög þungt í umræðunni sem nú á sér stað.

Óeining milli yfirvalda á evrusvæðinu hefur haft neikvæð áhrif á fjármögnunarkostnað þeirra landa sem berjast nú í bökkum. Kaup Evrópska seðlabankans á ríkisskuldabréfum í síðustu viku höfðu þau áhrif að lækka ávöxtunarkröfuna, en sú lækkun hefur nú að mestu gengið til baka.

Sú hugmynd hefur komið fram að neyðarsjóður Evrópusambandsins verði stækkaður, en í honum eru nú 440 milljarðar evra. Þá hefur það jafnframt verið lagt til að Evrópusambandið standi sameiginlega að skuldabréfaútgáfu, sem ætlað er að lækka fjármögnunarkostnað skuldsettustu ríkjanna.

Fréttastofa Bloomberg hefur það eftir Merkel að hún sjái „ekki nauðsyn þess að stækka sjóðinn eins og stendur.“ Sameiginleg skuldabréfaútgáfa sé jafnframt ekki leyfileg samkvæmt lögum sambandsins, og því tómt mál að tala um hana að svo stöddu. Hún hefur sjálf hagsmuna að gæta, þar sem hin nýja skuldabréfaútgáfa hefði að líkindum þau áhrif að hækka fjármögnunarkostnað Þjóðverja.

Verði sjónarmið Merkel ofan á á fundinum í dag er líklegt að  Evrópski seðlabankinn telji sig ekki eiga annarra kosta völ en að halda áfram stórfelldum skuldabréfakaupum sínum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK