Verð á hráolíu hélt áfram að hækka í rafrænum viðskiptum í Asíu í nótt og í morgun eftir að hafa náð hæsta gildi sínu í tvö ár á föstudag. Í New York hefur verið á hráolíu til afhendingar í janúar hækkað um 19 sent og er 89,38 dalir tunnan. Á föstudagskvöldið var lokaverð hennar á NYMEX markaðnum í New York 89,19 dalir tunnan og hefur ekki verið hærri frá 9. okóber 2008.
Brent Norðursjávarolía hefur einnig hækkað í verði í Lundúnum eða um 20 sent og er 91,62 dalir tunnan en þar fékkst einnig hæsta verð sem fengist hefur fyrir hráolíu í tvö ár á föstudag.
Fjárfestar á olíumarkaði létu sér fátt um finnast um aukið atvinnuleysi í Bandaríkjunum á föstudag og létu sig meir skipta lækkun á gengi Bandaríkjadals. Eins hafði kuldinn víða í Evrópu áhrif til hækkunar.