Már Guðmundsson, seðlabankastjóri, segir að bankinn muni meta áhrif af Icesave-samningi þegar hann liggur fyrir líkt og gert hafi verið við fyrri samninga. Þetta kom fram á fundi með blaðamönnum í Seðlabanka Íslands í dag.
Már segir ljóst að tafir á samningnum hafi kostað Íslendinga heilmikið fé og hann telji best að ljúka þessum samningum.
Þórarinn G. Pétursson aðalhagfræðingur Seðlabanka Íslands segir að tölur sem Hagstofa Íslands birti í gær varðandi einkaneysluspá séu í takti við spá Seðlabankans.
Hann segist hins vegar vera mjög hugsi yfir tölum Hagstofu varðandi fjárfestingu.
Fjárfesting (árstíðaleiðrétt) dróst saman á 3. ársfjórðungi samanborið við ársfjórðunginn á undan og nemur lækkunin 5,6%. Fjárfesting atvinnuvega dróst saman um 9,6%. Fjárfesting hins opinbera jókst hins vegar um 0,6% og íbúðafjárfesting um 4,1%. Óárstíðaleiðréttar tölur sýna 10,8% samdrátt fjárfestingar á 3. ársfjórðungi miðað við sama fjórðung árið 2009, segir í frétt á vef Hagstofu Íslands.
Þórarinn segir að þessar tölur séu ekki i samræmi við þær upplýsingar sem Seðlabankinn hafi undir höndum. Þórarinn segir að þetta eigi eftir að lagast þó svo þessi liður sé veikari en Seðlabankinn hafi spáð.