Fréttaskýring: Slæm áhrif á alþjóðlega ímynd PwC

Í skýrslunni um Glitni segir að strax um áramótin 2006/2007 …
Í skýrslunni um Glitni segir að strax um áramótin 2006/2007 hafi eigið fé bankans verið ofmetið. Hefði það verið metið á réttan hátt hefði eiginfjárhlutfallið verið komið í 4,5 prósent í árslok 2007, sem er vel undir mörkum. mbl.is/Kristinn

Skýrslur, sem unnar voru fyrir embætti sérstaks saksóknara um starfshætti endurskoðunarfyrirtækisins PricewaterhouseCoopers á Íslandi (PwC) þegar kom að endurskoðun árs- og árshlutareikninga Glitnis og Landsbankans, geta haft slæm áhrif á ímynd PwC alþjóðlega, að sögn stjórnarmanna í slitastjórn Glitnis.

Sama á við um málshöfðun slitastjórnarinnar gegn PwC á Íslandi í New York, einkum ef dómstóllinn úrskurðar slitastjórninni í hag, að sögn Steinunnar Guðbjartsdóttur, formanns slitastjórnarinnar.

Hún segir í samtali við Morgunblaðið að slitastjórnin hafi skoðað hugsanlega málsókn gegn PwC Global, en niðurstaðan hafi hins vegar verið sú að höfða málið gegn PwC á Íslandi. „Málið hefur hins vegar áhrif á orðspor PwC á alþjóðavísu,“ segir hún. Sama segir Páll Eiríksson, sem situr í slitastjórninni.

Vignir Rafn Gíslason, formaður stjórnar PwC á Íslandi, segir fyrirtækið illa geta svarað því sem fram hefur komið í fréttum um efni skýrslnanna því PwC hafi ekki fengið þær í hendur. „Enginn á okkar vegum hefur verið kallaður til sérstaks saksóknara vegna þessa, en okkar gögn sýna að okkar vinna var að öllu leyti í samræmi við lög og reglur.“ Vignir segir jafnframt að PwC Global standi þétt við íslenska fyrirtækið. Hins vegar sé engin spurning um ábyrgð samtakanna á gjörðum einstakra meðlima. „PwC á Íslandi er sjálfstætt fyrirtæki í eigu starfsmanna þess, eins og öll önnur fyrirtæki sem starfa undir merkjum PwC. Hvert þeirra er að öllu leyti sjálfstætt.“

Útilokar ekki frekari dómsmál

Vignir sagði jafnframt að þótt áherslan væri nú á störf endurskoðenda bankanna lægi ábyrgðin á ársreikningum þeirra hjá viðkomandi bankastjórnum.

Í skýrslunum, sem m.a. var sagt frá í DV, sjónvarpsfréttum RÚV og í Viðskiptablaðinu, segir að endurskoðendum hefði mátt vera ljóst við skoðun ársreikninga fyrir árið 2007 að bæði Landsbankinn og Glitnir væru mun verr staddir en endurskoðaðir reikningar gæfu til kynna. Í tilviki Glitnis hefði eigið fé bankans verið ofmetið allt frá árslokum 2006.

Samkvæmt frétt Viðskiptablaðsins beinist gagnrýnin einkum að því að endurskoðendur hafi samþykkt skilgreiningar bankanna á því hverjir ættu að teljast tengdir aðilar í skilningi laga. Hefðu skilgreiningar bankanna verið of þröngar og er sem dæmi nefnt að í tilviki Glitnis hafi Baugur, FL Group og Geysir Green Energy ekki verið flokkuð sem tengdir aðilar, þótt Jón Ásgeir Jóhannesson hafi ráðið yfir fyrirtækjunum öllum í árslok 2007.

Steinunn Guðbjartsdóttir segir að málshöfðunin gegn PwC í New York snúi aðeins að tiltekinni skuldabréfaútgáfu. Slitastjórnin útiloki hins vegar alls ekki frekari málshöfðanir á hendur endurskoðendum bankans, hvort heldur hér á landi eða annars staðar.

Slitastjórn Landsbankans hefur gengið lengra í sínum yfirlýsingum, en Herdís Hallmarsdóttir, sem situr í slitastjórn bankans, sagði í upphafi mánaðarins að bæði skilanefnd og slitastjórn Landsbankans hefðu framkvæmt ítarlega rannsókn á ytri endurskoðendum og niðurstaðan væri sú að um vanrækslu hefði verið að ræða við endurskoðun á reikningum bankans fyrir árið 2007 og undirritun á árshlutareikningum 2008. PricewaterhouseCoopers sá um endurskoðun á reikningum Landsbankans líkt og hjá Glitni.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Loka