Jón Ásgeir Jóhannesson gerir ráð fyrir að höfða skaðabótamál gegn slitastjórn Glitnis vegna máls sem slitastjórnin höfðaði gegn honum, viðskiptafélögum hans og fleirum fyrir dómstóli í New York. Þetta kemur fram á vef Viðskiptablaðsins.
Viðskiptablaðið hefur eftir Jóni Ásgeiri að frávísun málsins hafi ekki komið honum á óvart. Það hefði verið augljóst að málið ætti ekki heima í New York. Jón Ásgeir fullyrðir að slitastjórnin hafi nú kastað þremur milljörðum á glæ. "Ég geri ráð fyrir að við munum fara í skaðabótamál vegna þessa,“ sagði Jón Ásgeir, að því er segir á vb.is.
Á vef Ríkisútvarpsins er haft eftir Pálma Haraldssyni, sem slitastjórnin stefndi einnig fyrir dóm í New York, að kostnaður slitastjórnarinnar vegna málsins væri nálægt tveimur milljörðum króna. Málið hafi valdið honum gríðarlegu andlegu og fjárhagslegu tjóni.