Tæplega helmingur þeirra rúmlega sextíu starfsmanna Kaupþings sem slitastjórn bankans hefur rukkað vegna lána sem þeir fengu til hlutabréfakaupa hefur samið við bankann um endurgreiðslu. Samningarnir sem þegar hafa náðst munu skila búinu vel á annað hundrað milljónum.
Starfsmennirnir fengu fimmtán milljarða að láni með persónulegri ábyrgð sem var felld niður á stjórnarfundi bankans nokkrum dögum fyrir bankahrun. Þeirri ákvörðun var rift í vor. Persónulegu ábyrgðirnar sem nú hefur verið reynt að innheimta námu þó innan við tíu milljörðum, segir í Fréttablaðinu í dag.
Af þessum ríflega sextíu starfsmönnum fengu um tuttugu lykilstarfsmenn níutíu prósent heildarupphæðarinnar að láni.
Enginn starfsmannanna hefur verið knúinn í gjaldþrot, að sögn Ólafs Garðarssonar, formanns slitastjórnar Kaupþings í Fréttablaðinu í dag.