Málum slitastjórnar Glitnis gegn Pálma Haraldssyni, Jóni Ásgeiri Jóhannessyni, Þorsteini Jónssyni, Ingibjörgu Pálmadóttur, Jóni Sigurðssyni, Hannesi Smárasyni, Lárusi Welding og PwC á Íslandi hefur verið vísað frá dómi af dómstóli í New York. Segir í úrskurði dómara að dómstóllinn hafi ekki lögsögu í málinu vegna þess að bæði stefnandi og stefndu séu íslensk.
Steinunn Guðbjartsdóttir, formaður slitastjórnar, segir að dómarinn hafi sett tvö skilyrði fyrir því að málinu yrði vísað frá. „Í fyrsta lagi þurfa stefndu að lýsa því yfir fyrir dómi að þau muni ekki mótmæla lögsögu íslensks dómstóls í málinu. Í öðru lagi þurfa þau að lýsa því yfir að þau muni ekki mótmæla því að dómur, sem fellur á Íslandi, sé aðfararhæfur í New York.“
Steinunn segir að niðurstaða dómsins sé ákveðin vonbrigði. „Það er hins vegar eðli dómsmála að stundum vinnur maður og stundum ekki. Næst á dagskrá hjá okkur verður að leggjast yfir málið að nýju og ákveða næstu skref. Við búum nú yfir meiri upplýsingum en áður og ýmsir möguleikar eru okkur opnir.“ Steinunn segir að ekki hafi verið tekin ákvörðun um það hvort úrskurði dómsins verði áfrýjað.