Óvarðir kröfuhafar Landsbankans buðust til þess í vor að lána bankanum fyrir greiðslu handa breskum og hollenskum stjórnvöldum vegna tryggingar þeirra á Icesave-innistæðum upp að 21 þúsund evrum. Lánið yrði veitt með fyrsta veðrétti í eignum Landsbankans.
Um var að ræða hluta af tillögu þeirra að lausn Icesave-málsins sem kynnt var bæði íslenskum og breskum stjórnvöldum. Tillögurnar voru unnar af Deutsche Bank fyrir hóp stórra óvarinna kröfuhafa Landsbankans. Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins tóku bresk stjórnvöld vel í þessar hugmyndir, enda myndi lausnin fela það í sér að þau fengju Icesave-greiðsluna strax.
Fulltrúar þeirra kröfuhafa sem blaðið hefur rætt við fullyrða einnig að íslenskum stjórnvöldum hafi litist vel á þessa tillögu enda myndi hún leiða til þess að ríkið yrði laust allra mála vegna Icesave-málsins. Þeir furða sig hinsvegar á því að íslensk stjórnvöld reyndu ekki að vinna þessari útfærslu brautargengi í viðræðum sínum við bresk og hollensk stjórnvöld, að því er fram kemur í umfjöllun um mál þetta í viðskiptablaði Morgunblaðsins í dag.
Í minnisblaði kröfuhafa um málið kemur fram að útfærslan ætti að hafa jákvæð áhrif fyrir íslenskt efnahagslíf þar sem hún felur í sér að Landsbankinn myndi sækja sér verulegar upphæðir á erlenda fjármálamarkaði og það myndi senda jákvæð skilaboð til annarra mögulegra lánveitenda.