Erlendur lögmannskostnaður þeirra sjö sem var stefnt fyrir dóm í New York af slitastjórn Glitnis nam milljónum Bandaríkjadala, samkvæmt tilkynningu frá tíu nafngreindum lögmönnum. Málshöfðunin snerist um útgáfu Glitnis á skuldabréfum í New York-ríki að fjárhæð einn milljarður dala og krafðist slitastjórnin bóta sem námu meira en tveimur milljörðum dala.
„Dómari í New York vísaði máli slitastjórnar Glitnis á hendur sjö einstaklingum og einu fyrirtæki frá dómi á þeim grundvelli að málið væri á milli íslenskra aðila og snerist um túlkun á íslenskum lögum. Rétt væri að slíkur ágreiningur fengi úrlausn fyrir íslenskum dómstólum.
Af hálfu slitastjórnar Glitnis var lýst vonbrigðum með niðurstöðuna en tekið fram að ákvörðun um að höfða málið í New York hefði verið tekin samkvæmt ráðgjöf erlendra sérfræðinga sem rannsaki starfsemi Glitnis á vegum slitastjórnarinnar.
Meðal röksemda sem slitastjórnin tefldi fram til stuðnings því að málið ætti undir dómstól í New York var sú að íslenskir dómstólar væru ekki vel í stakk búnir til þess að leysa úr máli eins og þessu. Bandaríski dómarinn féllst ekki á rök slitastjórnarinnar og erlendu ráðgjafanna.
Úr ágreiningi milli íslenskra aðila um túlkun á íslenskum réttarreglum sem varða fyrst og fremst íslenska hagsmuni, ber að leysa fyrir íslenskum dómstólum. Slitastjórn ber að taka ákvarðanir sínar á grundvelli staðgóðrar þekkingar á íslenskum lögum. Slík þekking verður ekki sótt til erlendra verktaka.
Af kostnaðarástæðum er ekkert gamanmál fyrir Íslending að vera stefnt fyrir dóm í New York. Erlendur lögmannskostnaður einstaklinganna sjö sem stefnt var nam milljónum dala. Slitastjórnin hefur neitað að gefa upplýsingar um sinn kostnað af málsókninni og undirbúningi hennar. Víst er að hann er miklu meiri en kostnaður stefndu.
Ákvörðun slitastjórnarinnar um málshöfðun í Bandaríkjunum reyndist illa ígrunduð. Málarekstur um formhlið þessa eina máls kostaði stefndu og kröfuhafa Glitnis fjármuni sem nægt hefðu til þess að standa straum af kostnaði við rekstur allra héraðsdómstóla landsins og Hæstaréttar að auki árið 2010.
Á að
halda leiknum áfram fyrir dómstóli í öðru erlendu ríki?," segir í yfirlýsingu lögmannanna. Þeir eru: Ásgeir Thoroddsen, Gestur Jónsson, Gunnar Jónsson, Hákon Árnason, Helgi Sigurðsson, Hörður Felix Harðarson, Jakob R. Möller, Ragnar H. Hall, Sigurður G. Guðjónsson og Sigurmar K. Albertsson.