Greining Íslandsbanka telur að íbúðaverð muni á næstu tveimur árum hækka um 10% að nafnverði. Til grundvallar liggur spá greiningar um að kaupmáttur launa haldi áfram að hækka, að það dragi úr atvinnuleysi, vextir lækki enn frekar, aðgengi að lánsfjármagni muni batna, gengi krónunnar muni styrkjast aðeins og að verðbólgan haldist lág. Þetta kemur fram í Morgunkorni greiningar Íslandsbanka.
„Hvort sem litið er til þróunar nafnverðs eða raunverðs er ljóst að um mun minni lækkun er að ræða en margir bjuggust við á árinu. Reyndar virðist flest benda til þess að botninum sé nú náð á íbúðamarkaði og framundan sé tímabil verðhækkunar. Verðhækkanir hafa nú leyst lækkanir að hólmi og veltan er byrjuð að aukast á nýjan leik.
Samtals voru gerðir 924 kaupsamningar um íbúðahúsnæði undanfarna 3 mánuði sem er aukning um tæplega 45% frá sama tímabili fyrra árs. Reynist botninum vera náð í þessari niðursveiflu og íbúðaverð lækki ekki meira er ljóst að íbúðaverð hefur lækkað um 15% að nafnvirði og tæp 40% að raunvirði í þeirri kreppu sem ríkt hefur á íbúðamarkaði frá ársbyrjun 2008.
Þetta er svipuð þróun og sést hefur í öðrum löndum sem lent hafa í fjármálakreppum og í samræmi við þá spá sem við settum fram um íbúðaverð skömmu eftir að gjörningaveðrið skall á haustið 2008," segir í Morgunkorni Íslandsbanka.