Ekkja bandarísks kaupsýslumanns, sem átti í viðskiptum við fjársvikarann Bernard Madoff í nærri 35 ár, hefur ákveðið að skila aftur 7,2 milljörðum dala, 835 milljörðum króna, sem Madoff greiddi kaupsýslumanninum í arð.
Jeffry Picower drukknaði í sundlaug sinni í október á síðasta ári eftir að hafa fengið hjartaáfall. Hann varð 67 ára. Picower var einn af fyrstu viðskiptavinum Madoffs og á 35 árum fékk hann greidda samtals um 7 milljarða dala í arð. Madoff hélt því fram að um væri að ræða hagnað af fjárfestingum og hlutabréfaviðskiptum en í raun var fjármálaveldi Madoffs umfangsmikið píramídasvindl.
Þegar upp komst um Madoff árið 2008 kom í ljós að hann hafði aldrei stundað neinar fjárfestingar heldur notað fé, sem viðskiptavinir fólu honum að fjárfesta, til að greiða öðrum viðskiptavinum tilbúinn arð. Um 4800 manns fólu Madoff að ávaxta fyrir sig fé og er talið að þeir hafi tapað um 65 milljörðum dala. Madoff, sem er 72 ára, var á síðasta ári dæmdur í 150 ára fangelsi.
Barbara Picower, ekkja Jeffrys Picowers, sendi í gær frá sér yfirlýsingu þar sem hún segist ætla að skila aftur því fé, sem maður hennar fékk hjá Madoff. Segist hún telja athæfi Madoffs vera fyrirlitlegt og að hún sé afar sorgmædd yfir því tjóni sem viðskiptavinir Madoffs hafi orðið fyrir. Vonist hún til þess, að með því að skila fénu megi draga úr því tjóni.
Lögmenn Picowers segja, að hann hafi ekkert vitað um ráðabrugg Madoffs en lögmenn annarra viðskiptavina Madoffs hafa sagt, að Picower hljóti að hafa vitað að maðkur var í mysunni vegna þess hve arðurinn af fjárfestingunum var rausnarlegur.