Bankar og sparisjóðir hafa samtals afskrifað 112 milljarða króna af skuldum starfandi fyrirtækja frá upphafi árs 2009. Afskriftirnar eru til komnar í tengslum við fjárhagslega endurskipulagningu fyrirtækjanna. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Samtökum fjármálafyrirtækja.
„Samkvæmt upplýsingum frá stærstu lánastofnunum hafa um 160 milljarðar króna verið afskrifaðir í tengslum við gjaldþrot fyrirtækja. Er þar bæði um að ræða eignarhaldsfélög og einnig rekstrarfélög sem komist hafa í þrot.
Ef afskriftir starfandi fyrirtækja eru sundurliðaðar kemur í ljós að í tengslum við fjárhagslega endurskipulagningu fyrirtækja, þar sem bankar eða sparisjóðir hafa neyðst til að taka yfir félög, hafa verið afskrifaðir um 71 milljarður króna frá 1. janúar 2009.
Bankar og sparisjóður hafa afskrifað um 41 milljarð króna hjá rekstrarfélögum sem hafa gengið í gegnum, eða eru í fjárhagslegri endurskipulagninu og eru enn í óbreyttu eignarhaldi,“ segir í tilkynningu.
Samtals gerir þetta 272 milljarða króna.