Innganga í Myntbandalag Evrópu (EMU), sem fylgir aðild að Evrópusambandinu, virðist að mati Seðlabanka Íslands, vera besti kosturinn eigi á annað borð að festa gengi krónunnar við evru eða taka hana upp sem innlenda mynt ef fallið verður frá sjálfstæðri peningastefnu með fljótandi gjaldmiðil. Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýrri skýrslu sem Seðlabanki Íslands hefur gefið út.
„Ef fallið yrði frá sjálfstæðri peningastefnu með fljótandi gjaldmiðil og tekin upp fastgengisstefna væri heppilegast út frá hagrænum sjónarmiðum að festa gengi krónunnar við evruna. Fastgengisstefna hefur bæði kosti og galla.
Meðal helstu kosta eru að óvissa tengd gengissveiflum verður minni, a.m.k. ef tekst að varðveita fastgengið og forðast spákaupmennskuárásir. Á móti kemur að sjálfstæðri peningastefnu verður ekki beitt með innlendar efnahagsaðstæður í huga.
Aðlögun þjóðarbúskaparins í kjölfar ytri skella á sér því stað í meira mæli í gegnum raunstærðir líkt og atvinnu og framleiðslu. Þetta er þó ekki einhlítt, því að innlendar hagsveiflur kunna einnig að eiga rót sína að rekja til gengissveiflna að nokkru leyti. Verði fastgengisfyrirkomulag hins vegar tekið upp, eru mismunandi útfærslur mögulegar.
Innganga í Myntbandalag Evrópu, sem fylgir aðild að Evrópusambandinu, virðist betri kostur en tenging við evruna eða einhliða upptaka hennar eða önnur veikari form fastgengistengingar.
Annar kostur, sem oft hefur verið nefndur í umræðunni, er einhliða upptaka annars gjaldmiðils, þá yfirleitt evrunnar. Kostir einhliða evruvæðingar eru á margan hátt svipaðir og kostir myntráðs. En þar sem ekki er lengur um notkun innlends gjaldmiðils að ræða í innlendum viðskiptum er ekki lengur um tengingu gjaldmiðla að ræða. Því er enn meira umhendis að fara til baka og taka upp flotgengi á ný. Trúverðugleiki fyrirkomulagsins er því enn meiri. Einnig er líklegt að samband innlendra og erlendra vaxta verði enn sterkara en í tilfelli myntráðs," segir í skýrslu Seðlabankans sem kom út í dag.
Segir í skýrslunni að með inngöngu í Myntbandalagið áynnust kostir trúverðugrar fastgengisstefnu með minni tilkostnaði en bæði upptaka myntráðs og einhliða upptaka evru.
„Seðlabanki Íslands fengi einnig aðild að Evrópska Seðlabankanum og hlutdeild í myntsláttuhagnaði (e. seigniorage) bandalagsins. Innlend fjármálafyrirtæki fengju jafnframt aðgang að lausafjárfyrirgreiðslu í evrum hjá Seðlabanka Evrópu, í gegnum Seðlabanka Íslands sem yrði hluti evrópska seðlabankakerfisins.
Hins vegar er rétt að ítreka að óháð því hvort Ísland gerist að lokum aðili að EMU þarf að huga að ýmsum umbótum á núverandi peningastefnu, því að nokkur ár munu líða áður en af aðild getur orðið. Þar að auki hefur nýleg reynsla innan gjaldmiðlabandalagsins sýnt að brýn þörf er á ýmsum endurbótum í framkvæmd peningastefnunnar og efnahagsstefnunnar almennt. Sumar umbætur sem lýst er hér á eftir er því einnig nauðsynlegt að gera þótt Ísland verði þátttakandi í gjaldmiðlabandalaginu," segir í skýrslu Seðlabankans.