Kreppan leiddi í ljós ágalla

CHARLES PLATIAU

Alþjóðlega fjármálakreppan hefur leitt í ljós alvarlega ágalla í uppbyggingu hins alþjóðlega fjármálakerfis og eftirliti hins opinbera með því. Hún hefur einnig sýnt fram á ýmis vandamál við fyrirkomulag stjórnar peningamála víða um heim.

Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Seðlabanka Íslands um peningastefnu hér á landi og afhent hana efnahags- og viðskiptaráðherra. Í skýrslunni er gerð grein fyrir helstu sjónarmiðum er varða framtíðarfyrirkomulag gengis- og peningamála.

Þeir gallar tengjast hins vegar ekki sérstaklega verðbólgumarkmiðsfyrirkomulaginu sem slíku, enda var uppspretta kreppunnar í Bandaríkjunum sem byggja ekki á formlegu verðbólgumarkmiði og hún breiddist út um allan heim, óháð því hvort viðkomandi ríki byggði peningastefnu sína á verðbólgumarkmiði eða ekki, segir í skýrslunni.

Reyndar bendir nýleg reynsla til þess að verðbólgumarkmiðsríki hafi að jafnaði komið betur út úr kreppunni en önnur ríki. Auk þess er ekkert í verðbólgumarkmiðsfyrirkomulaginu sem kemur í veg fyrir að peningastefnunni sé beitt til að vinna á móti áhrifum fjármálaáfalla.

Í slíku tilfelli fer jafnan saman erfiðari aðgangur að lánsfé, neikvæð auðsáhrif, minnkandi umsvif og minni verðbólguþrýstingur. Við slíkar aðstæður bregst peningastefnan við með slakara aðhaldi að öðru óbreyttu,  sem er í fullkomnu samræmi við verðbólgumarkmiðið. Jafnvel má færa fyrir því rök að trúverðugt verðbólgumarkmið geti dregið úr hættunni á verðhjöðnun, sem gæti aukið á samdráttinn enn frekar, samkvæmt skýrslu Seðlabankans.

Kallar á endurskoðun peningastefnunnar

„Hins vegar er ljóst að fjármálakreppan hefur kallað á endurskoðun peningastefnunnar, bæði í ríkjum sem fylgja verðbólgumarkmiði og ríkjum sem fylgja annars konar fyrirkomulagi. Hún hefur sýnt að þörf er á að seðlabankar leggi meiri áherslu á fjármálalegan stöðugleika, ekki síður en verðstöðugleika og hún hefur sýnt að jafnvel þótt verðstöðugleiki sé tryggður geti undirliggjandi ójafnvægi kraumað á lánsfjár- og eignamarkaði sem síðar getur brotist í eignaverðsbólu og að lokum í fjármálakreppu þegar bólan springur. Kreppan hefur því undirstrikað mikilvægi þess að seðlabankar horfi meira til útlánaþróunar og eignaverðs við mótun peningastefnunnar en áður hefur tíðkast.

Annar lærdómur af fjármálakreppunni er að þótt hið hefðbundna tæki peningastefnunnar, vextir, feli í sér verð skuldsetningar og virki því að öðru óbreyttu hamlandi á hana, þá er það eitt og sér ekki nægilegt til að ná þessum markmiðum.

Vaxtatækið nýtist fyrst og fremst til þess að hafa áhrif á almenna lánsfjáreftirspurn en hentar illa til að takast á við undirliggjandi brotalamir í fjármálakerfinu. Vaxtatækið er einnig almennt tæki sem er ekki hægt að beita á ákveðna geira þar sem vandinn er talinn eiga sér uppsprettu. Þar að auki getur peningastefnan við ákveðin skilyrði ýtt undir bólumyndun á einum eignamarkaði þegar verið er að vinna gegn bólumyndun á öðrum eignamarkaði.

Augljóst dæmi er í litlum opnum hagkerfum þar sem vaxtahækkun til að vinna á móti bólu á fasteigna- eða hlutabréfamarkaði getur á sama tíma ýtt undir bólu á gjaldeyrismarkaði. Að lokum er ljóst að ekki er hægt að nota vaxtatækið eitt til að tryggja bæði verðstöðugleika og fjármálalegan stöðugleika. Til þess þurfa seðlabankar fleiri stjórntæki. Umræðan undanfarið hefur því að hluta snúist um hvaða viðbótartæki sé hægt að láta seðlabanka í té til þess að ná þessum markmiðum," segir í skýrslu Seðlabanka Íslands.

Aldrei hægt að koma algerlega í veg fyrir áföll

Segja skýrsluhöfundar að rétt sé að hafa í huga að aldrei verður hægt að koma algerlega í veg fyrir fjármálaáföll. Markmið slíkra tækja er fyrst og fremst að reyna að draga úr líkum á fjármálaáföllum og minnka efnahagslegan skaða þeirra skelli slík fjármálakreppa á.

Skýrslan í heild

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK