Fram til ársins 1920 var íslenska krónan á pari við dönsku krónuna en á því ári var ákveðið að skrá gengi hennar sérstaklega. Gengi dönsku krónunnar er nú um 20 íslenskar krónur.
Ef tekið er tillit til myntbreytingarinnar árið 1981 er gengi dönsku krónunnar u.þ.b. 2.000 gamlar íslenskar krónur. Verðgildi krónunnar gagnvart hinni dönsku er því aðeins 0,05% af því sem það var árið 1920, sem jafngildir rýrnun um 99,95% á þessu 90 ára tímabili. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Seðlabanka Íslands.
Kaupmáttur krónunnar gagnvart neysluvörum og þjónustu hefur rýrnað enn meir. Miðað við vísitölu neysluverðs í heild (VNV) nam virði hverrar krónu í júní árið 1944 7.147 gömlum krónum (71,47 nýkrónum) í ágúst sl.
Ef miðað er við VNV án húsnæðis er hlutfallið hins vegar 10.337 gamlar krónur (103,37 nýkrónur) sem jafngildir því að verðgildi krónunnar hafi rýrnað um 99,99%.
Saga peningastefnu og gjaldmiðlamála á Íslandi er því þyrnum stráð allt frá upphafi, óháð því hvernig gengis- og peningastefnan hefur verið útfærð, segir í nýrri skýrslu sem Seðlabankinn hefur unnið og skilað til efnahags- og viðskiptaráðherra.