Skuldatryggingarálag á evruskuldir ríkissjóðs Íslands hefur verið nokkuð stöðugt upp á síðkastið. Í lok dags í gær stóð álagið til fimm ára í 269 punktum (2,69%) samkvæmt gögnum úr Bloomberg-gagnaveitunni sem er á svipuðu róli og það hefur verið upp á síðkastið.
Þannig hefur áhættuálagið á ríkissjóð verið að meðaltali 270 punktar það sem af er desembermánuði sem er 6 punktum lægra en það var að meðaltali mánuðinn á undan en 143 punktum lægra en það var að meðaltali í desember í fyrra. Í raun hefur áhættuálagið ekki verið svona lágt, ef tekið er mið af meðaltali mánaðar, frá því í júní árið 2008, þ.e. áður en bankahrunið skall á, segir í Morgunkorni greiningar Íslandsbanka.
„Ekki er hægt að segja hið sama um þróunina á skuldatryggingarálagi almennt á meðal annarra ríkja í Vestur Evrópu. Hefur álagið á flest þessi ríki verið að hækka og á mörgum hverjum hefur það aldrei verið jafn hátt og þennan mánuðinn. Þetta á við skuldatryggingarálagið á Grikkland sem hefur að meðaltali verið 929 punktar það sem af er þessum mánuði og er sömu sögu að segja um álagið á Spán (319 punktar), Ítalíu (208 punktar), Belgíu (195 punktar) og svo Frakkland (98 punktar).
Þetta hefur gert það að verkum að meðaláhættuálagið á ríki Vestur Evrópu hefur ekki verið jafn hátt að jafnaði og einmitt þennan mánuðinn, en það hefur að meðaltali verið 204 punktar og því ekki langt frá álaginu á skuldir íslenska ríkisins," segir í Morgunkorni greiningar Íslandsbanka.