Auglýsendur munu nú í fyrsta skipti, á árinu sem er að líða, eyða meiri peningum í netauglýsingar en auglýsingar í dagblöðum. Tekjur af netauglýsingum munu nema um 25,8 milljörðum dollara, en dagblaðaauglýsingum 22,8 milljörðum.
Þetta er mat fyrirtækisins eMarketer. Þessi tímamót hafa verið í aðsigi síðustu ár, þar sem neytendur hafa í æ meiri mæli fært sig yfir á netið, sem býður upp á betri möguleika á því að miðla fréttum skilmerkilega. Miðlar og dagblöð á netinu geta ekki rukkað jafn hátt auglýsingaverð og pappírsmiðlar, þannig að hingað til hafa tekjur netmiðla ekki náð tekjum pappírsmiðla, þrátt fyrir fleiri notendur.
„Þetta hefur verið í aðsigi mjög lengi, en þetta eru tímamót,“ hefur Wall Street Journal eftir Geoff Ramsey, forstjóra eMarketer.
Það eru ekki aðeins dagblöð sem þurfa að mæta vaxandi samkeppni frá netinu. Nýleg rannsókn Forrester Research sýnir að bandarískir neytendur eyða að meðaltali jafn miklum tíma á netinu og sjónvarpsáhorf. Þó eyða þeir ekki minni tíma fyrir framan sjónvarpið en áður.