Nýi Landsbankinn hefur verið sýknaður af um 730 milljóna króna kröfu sænska bankans Handelsbanken, en dómur þess efnis féll í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag.
Árið 2003 gekkst sænski bankinn í ábyrgð fyrir leigugreiðslum Baugs Group vegna verslunarhúsnæðis í Stokkhólmi. Ábyrgðin var til fimm ára og veitti Landsbankinn fulla bakábyrgð fyrir greiðslunum. Þegar Fjármálaeftirlitið tók Landsbankann yfir þann 7. október 2008 var óljóst hvort ábyrgðin myndi verða eftir í gamla bankanum eða flytjast yfir í þann nýja og voru skilaboð frá nýjum stjórnendum Landsbankans misvísandi.
Handelsbanken fékk þannig yfirlýsingu þann 14. október 2008 þar sem staðfest var að nýi bankinn hefði tekið yfir ábyrgðina í samræmi við ákvörðun Fjármálaeftirlitsins frá 9. október um skiptingu eigna og skulda milli gamla og nýja bankans. Segir þar að nýi bankinn taki ekki ábyrgðir vegna fyrirtækja í greiðslustöðvun, undir nauðasamningi eða gjaldþrotaskiptum.
Yfirlýsing skapaði ekki rétt
Í dómnum segir að í ljósi nýrra upplýsinga og breyttra forsendna, sem komið hafi fram við skoðun á málefnum Landsbankans, hafi FME þann 19. október gert breytingar á fyrri ákvörðun sinni, þar sem sagt var að sérstaklega tilgreindar ábyrgðir skyldu ekki flytjast yfir í nýja bankann. Var þar opnað á heimild til að skilja eftir ábyrgðir sem voru í tapsáhættu eða ábyrgðir sem myndu kalla á mikið flæði af erlendum gjaldeyri, svo dæmi séu nefnd. Hin breytta ákvörðun var afturvirk og tók gildi þann 9. október, eins og sú fyrri.
Fékk Handelsbanken skeyti þess efnis þann 3. febrúar 2009 að þrátt fyrir fyrri yfirlýsingu um yfirtöku ábyrgðarinnar sé hún skuldbinding gamla bankans en ekki þess nýja. Á þeim tíma var Baugur Group kominn í þrot.
Segir í dómi Héraðsdóms að yfirlýsing Landsbankans til Handelsbanken þann 13. október um yfirtöku ábyrgðarinnar verið röng og ekki í samræmi við fyrirmæli FME. Því hafi hún ekki ein og sér skapað sænska bankanum neinn rétt. Af þeim sökum var nýi bankinn sýknaður vegna aðildarskorts, en dómurinn taldi hins vegar rétt að hvor aðili bæri sinn kostnað af málinu.