84% stjórnenda telja aðstæður slæmar

Útflytjendur eru bjartsýnni en aðrir í íslensku viðskiptalífi
Útflytjendur eru bjartsýnni en aðrir í íslensku viðskiptalífi mbl.is/Eggert Jóhannesson

Yfirgnæfandi hluti stjórnenda 400 stærstu fyrirtækja landsins telja aðstæður slæmar í atvinnulífinu. Þetta kemur  fram í reglubundinni könnun Capacent meðal fyrirtækjanna.

Samkvæmt könnuninni, sem gerð var í desember 2010, telja 84% stjórnenda aðstæður slæmar, 15% að þær séu hvorki góðar né slæmar en nánast enginn að þær séu góðar. Þetta er svipuð niðurstaða og fengist hefur frá miðju ári 2008. Þeir örfáu stjórnendur sem telja aðstæður góðar starfa í sjávarútvegi og í iðnaði en í öðrum greinum telur enginn að aðstæður séu góðar, segir á vef Samtaka atvinnulífsins.

Tæp 25% vona að aðstæður verði betri eftir sex mánuði

Niðurstöðurnar eru svipaðar og í fyrri könnunum hvað varðar mat stjórnenda á aðstæðum eftir 6 mánuði. Tæplega 25% sjá fram á betri tíma eftir 6 mánuði, 30% að aðstæður verði verri en 45% telja þær  verði óbreyttar. Mikill munur er á svörum stjórnenda á landsbyggðinni og á höfuðborgarsvæðinu þar sem einungis 12,5% stjórnenda á landsbyggðinni telja að ástandið muni batna samanborið við 28% á höfuðborgarsvæðinu. Stjórnendur í fjármálastarfsemi og ýmissi sérhæfðri þjónustu eru bjartsýnastir á að ástandið muni batna á næstu sex mánuðum.

Nær allir eru með nóg af starfsfólki 

Nær allir aðspurðra telja sig hafa nægt starfsfólk og einungis 5,5% búa við skort á starfsfólki. Skortur á starfsfólki virðist mestur í fjármála- og tryggingastarfsemi. 

14% hyggjast fjölga starfsmönnum á næstu sex mánuðum, 26% hyggjast fækka en 60% halda óbreyttum fjölda. Þetta er heldur lakari niðurstaða en í síðustu könnunum. Mesta fjölgunin er áformuð í fjármála- og tryggingastarfsemi en mesta fækkunin í iðnaði og framleiðslu.

17% stjórnenda telja að innlend eftirspurn eftir vörum eða þjónustu fyrirtækjanna aukist á næstu sex mánuðum, tæplega 30% að hún minnki en rúmur helmingur býst við óbreyttri eftirspurn. Bjartsýnin er mest í ýmissi sérhæfðri þjónustu en dekkstu horfurnar koma fram í verslun.

  Bjartsýnir útflytjendur

Útflytjendur eru bjartsýnni en þar búast tæp 40% við aukinni eftirspurn eftir vörum eða þjónustu fyrirtækjanna, en einungis 14% að hún minnki. Þó vekur athygli að ekki er búist við aukningu í samgöngum, flutningum og ferðaþjónustu.

  Tæpur fimmtungur stjórnenda telur framlegð fyrirtækjanna, EBITDA, muni aukast á næstu sex mánuðum, 35% að hún muni minnka en tæplega helmingur að hún verði svipuð. Á síðustu sex mánuðum hefur framlegðin aukist hjá fjórðungi fyrirtækjanna, minnkað hjá 40% þeirra og staðið í stað hjá 35%.

Loks telja stjórnendur að verðbólgan verði 2,0% að meðaltali á næstu 12 mánuðum.

Um er að ræða könnun sem Samtök atvinnulífsins gera með reglubundnu bili í samstarfi við fjármálaráðuneytið og Seðlabanka Íslands. Var þessi könnun unnin 8.-22. desember sl.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Loka