Gengið hækkaði um 12% á árinu

Gengi krónunnar hefur styrkst þó nokkuð gagnvart flestum öðrum myntum á árinu. Hefur því gengisvísitala krónunnar, sem vegur saman verð gjaldmiðla helstu viðskiptaþjóða Íslands gagnvart krónunni, lækkað þó nokkuð á árinu. Þannig stóð gildi gengisvísitölunnar í lok síðasta árs í tæpum 233 stigum en nú stendur hún í 208 stigum og jafngildir þetta styrkingu upp á 12%. Þetta kemur fram í Morgunkorni Greiningar Íslandsbanka.

Kaupmáttaraukningin mest gagnvart forintunni

Segir deildin að þetta hafi haft í för með sér aukna ferðagleði Íslendinga en kaupmáttur hafi aukist mismikið og jafnvel minnkað. Á þetta til dæmis við ef Íslendingur ætlar að ferðast Ástralíu en þá þarf hann að reiða fram rúmum 5 krónum meira fyrir Ástralíudalinn (jafngildi 4% hækkunar) en um síðustu áramót. Svipaða sögu er að segja um ef áfangastaðurinn er annað hvort Japan eða Taíland.

Mest hefur gengi krónunnar styrkst gagnvart ungversku forintunni, og ætli Íslendingur að ferðast til Ungverjalands þarf hann nú að reiða fram um fimmtungi færri krónur fyrir forintuna en um síðustu áramót. Svipaða sögu er að segja ef ferðinni er heitið til Króatíu, og hefur krónan styrkst um 19% gagnvart hinni króatísku kúnu frá síðustu áramótum.

„Meginástæða hjöðnunar verðbólgunnar hér á landi á undanförnum misserum er að áhrif gengislækkunar krónunnar á verðbólgu, sem varð í aðdraganda og samhliða hruni bankakerfisins hér á landi á árinu 2008, eru nú nær horfin og við eru tekin áhrif styrkingar krónunnar. Því kemur styrking krónunnar ekki aðeins við buddu þeirra landsmanna sem hafa verið á faraldsfæti.

Á mælikvarða samræmdrar vísitölu neysluverðs fór verðbólgan mest upp í 21,9% hér á landi í janúar í fyrra, og mældist hún lengi vel langmest hér á landi af öllum ríkjum Evrópska efnahagssvæðisins (EES). Verulega hefur dregið úr henni frá þeim tíma og í nóvember síðastliðnum var hún komin niður í 3,8%. Á sama tíma og verðbólgan hefur hjaðnað hér á landi hefur hún almennt aukist erlendis.

Á mælikvarða samræmdrar vísitölu neysluverðs var verðbólgan í nóvember að meðaltali 2,3% í ríkjum EES, en til samanburðar þá hafði hún verið 1,1% á sama tíma árið á undan. Mest mældist verðbólgan í Rúmeníu (7,7%) í nóvember síðastliðnum en minnst á Írlandi (-0,8%), en sem kunnugt er þá hefur tólf mánaða taktur verðbólgu á Írlandi verið með neikvæðum formerkjum allt frá því í mars á síðasta ári," segir í Morgunkorni greiningar Íslandsbanka.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK