Verð á hráolíu hefur lækkað í dag en talið er að lækkunin hefði verið enn meiri ef ekki væri jafn mikil eftirspurn eftir olíu til húshitunar og raun ber vitni í ískulda víða í Evrópu og Bandaríkjunum.
Í New York hefur verð á hráolíu til afhendingar í febrúar lækkað um 37 sent og er 91,12 dalir tunnan.
Í Lundúnum hefur verð á Brent Norðursjávarolíu lækkað um 24 sent og er 94,14 dalir tunnan.
Segja sérfræðingar á olíumarkaði að svo lengi sem það helst jafn kalt og nú er víða á norðurhveli jarðar muni heimsmarkaðsverð á olíu ekki lækka mikið.