Samkvæmt hagfræðivölvunum verður 2011 árið sem íslenska hagkerfið rís á fætur á nýjan leik eftir bankahrunið. Þetta kemur fram í áramótaútgáfu Greiningar Íslandsbanka.
Allir spáaðilar sem birta opinberar spár fyrir íslenska hagkerfið búast þannig við að hagvöxtur verði loks á árinu eftir samdrátt síðustu tvö árin þar á undan. Þetta verður þó hægfara bati enda hefur endurreisn íslenska hagkerfisins gengið hægt.
„Misjafnlega mikill vöxtur er í kortunum eftir því hvaða völva á í hlut en mestum vexti spáir Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn sem býst við 3% hagvexti á næsta ári. Seðlabankinn býst við að hagkerfið vaxi um 2,1% á næsta ári. Hagstofan spáir 1,9% vexti, hagdeild Alþýðusambands Íslands spáir að vöxturinn verði 1,7% og OECD spáir 1,5% vexti.
Við búumst við að viðsnúningurinn á næsta ári verði öllu daufari, og að hagvöxturinn á næsta ári verði ekki nema 0,9% en taki svo almennilega við sér árið 2012 knúin áfram af vexti í einkaneyslu og fjárfestingum.
Þær hagspár sem hafa birst í vetur hafa allar verið á sömu bókina skrifaðar varðandi horfurnar framundan. Þannig búast nú allir við að batinn verði hægari en áður og vöxtur á næsta ári minni en áður var gert ráð fyrir. Það sem munar mestu þar um er að stór fjárfestingarverkefni hafa tafist sem veldur minni hagvexti," segir í Morgunkorni Íslandsbanka.