Hugmyndaríkur Þjóðverji hefur fundið leið til að komast hjá banni Evrópusambandsins við svokölluðum glóperum. Slíkar ljósaperur þykja ekki nægilega orkusparandi og á því að skipa Evrópubúum að skipta þeim út fyrir sparsamari perur.
Stærstur hluti orkunnar, sem fer um glóperur, verður ekki að ljósi heldur hita og er það ástæðan fyrir banninu. Þjóðverjinn Siegfried Rotthäuser selur hins vegar glóperur í gegnum netið undir nafninu „hitaperur“. Tekur hann það skýrt fram á síðunni að þær séu ætlaðar til hitunar en ekki lýsingar og telur hann að með því móti sé hægt að komast framhjá banninu. Þegar kalt er í veðri geta glóperur hjálpað til við hitun húsa, þótt varla sé hægt að hita íbúðarhúsnæði upp með þeim einum saman.
Væntanlega munu flestir viðskiptavina Rotthäusers kaupa perurnar til lýsingar en ekki hitunar en áhugavert verður að sjá hver viðbrögð stjórnvalda verða við framtaki hans.