Birgðir af hefðbundnum glóperum eru að renna út í Evrópu og árið 2012 verða þær með öllu bannaðar í Evrópusambandinu.
Framleiðendur ljósapera, sem nota minna rafmagn, losna því við samkeppnina frá frumstæðari lýsingu glóperanna. Er því ekki að undra að framleiðendurnir eru að hækka heildsöluverð á umhverfisvænni perum og í Bretlandi er gert ráð fyrir því að smásöluverð á perunum þrefaldist innan næstu þriggja mánaða. Pera sem áður kostaði 33 pens mun með öðrum orðum kosta meira en eitt pund innan skamms og munu sumar sparneytnari perur kosta meira en þrjú pund.
Evrópusambandið hefur nú þegar bannað smásölum að kaupa inn 100 vatta perur og frá september næstkomandi verður óheimilt að kaupa inn sextíu vatta perur.
Framleiðendur umhverfisvænni ljósapera hækkuðu heildsöluverð fyrir tveimur árum þegar ákveðið var að banna glóperur og eru að leika sama leikinn aftur núna, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.