Ísland er í sjöunda neðsta sæti þegar kemur að áætluðum hagvexti á þessu ári, að því er kemur fram á vef breska tímaritsins Economist. Er þar birtur listi yfir þær tíu þjóðir, þar sem gert er ráð fyrir mestum hagvexti og svo þær tíu þar sem áætlaður hagvöxtur verður minnstur.
Samkvæmt því verður áætlaður hagvöxtur hér á landi um 0,5 prósent í ár, sem er sambærilegt við það sem áætlað er að verði á Ítalíu.
Íslendingar geta þó huggað sig við að hagvöxtur verður enn verri í Venesúela, Írlandi, Portúgal og Grikklandi, þar sem gert er ráð fyrir því að landsframleiðsla skreppi saman á árinu. Mestur áætlaður hagvöxtur á þessu ári verður í Katar, eða um 16 prósent.