Alltaf lá fyrir að 365 ehf. þyrfti endurfjármögnun á sínum skuldum hjá NBI. Endanlegri skjalagerð vegna endurfjármögnunar fjölmiðlafyrirtækisins lauk í júlí 2009, og þess vegna var lánaskilamálum félagsins hjá NBI breytt á þeim tíma.
Þetta kemur fram í svari Kristjáns Kristjánssonar, upplýsingafulltrúa NBI, við fyrirspurn Morgunblaðsins.
„Það lá alltaf fyrir af hálfu Landsbankans að endurfjármögnun yrði nauðsynleg og sú endurfjármögnun var samþykkt af lánanefnd bankans í lok desember 2008. Endanlegri skjalagerð lauk í júlí 2009.“
„Landsbankinn hefur ekki lánað eigendum félagsins neitt,“ segir í svari NBI og einnig: „Kaupverð var greitt með yfirtöku skulda og síðan komu eigendur með 1,5 milljarða í nýtt eigið fé. Það var gert að kröfu bankans. Fyrri hluta árs 2010 komu þeir svo með 1 milljarð til viðbótar.“