Héraðsdómur Reykjavíkur hefur úrskurðað að leita skuli álits EFTA-dómstólsins á því hvort það samrýmist EES-samningnum að íslenska ríkið hindri íslenskan ríkisborgara, búsettan í Bretlandi, að flytja íslenskar krónur, sem hann keypti á aflandsmarkaði í Bretlandi, til Íslands.
Í 40. grein EES-samningsins segir að engin höft skuli vera milli aðildarríkja á flutningum fjármagns í eigu þeirra sem búsettir eru í þeim. Hins vegar er í 43. grein að finna reglur um hvenær og með hvaða hætti aðildarríki geti vikið til hliðar þessari meginreglu.
Segir í úrskurði héraðsdóms að ekki sé deilt um það í málinu hvort laga- og reglugerðabreytingar, sem gerðar voru í árslok 2008 brjóti gegn 40. grein laganna. Hins vegar deila aðilar um hvort verndarráðstafanir gagnvart krónunni séu heimilar samkvæmt undantekningarákvæðum 43. greinarinnar.