Aðhaldsaðgerðum íslenskra stjórnvalda svipar til aðgerða sem gripið var til í kreppunni í Svíþjóð og Finnlandi árið 1993 og í Danmörku í byrjun níunda áratugarins. Þetta kemur fram í fréttabréfi efnahags- og viðskiptaráðuneytisins.
Í fréttabréfinu segir að með fjárlögunum náist nánast frumjöfnuður, þ.e. jöfnuður á fjárlögum án vaxtagjalda og –tekna, sem hefur ekki verið jákvæður frá því fyrir hrun. Það megi teljast verulega góður árangur, aðeins tveimur árum eftir fall bankanna.
„Aðhaldsaðgerðum stjórnvalda svipar nokkuð til þeirra sem farið hefur verið í á Norðurlöndunum þegar harðnað hefur á dalnum. Með svipuðum hætti var brugðist við kreppum í Svíþjóð og Finnlandi árið 1993 og í Danmörku í byrjun níunda áratugarins. Tekið var með festu á útþöndum ríkisútgjöldum til að laga þau að breyttum veruleika, en fyrir vikið varð vöxtur hraðari þegar stigið var upp úr kreppunni.“
Efnahags- og viðskiptaráðuneytið hefur efnt til víðtæks samráðs um endurskoðun peningastefnunnar í ljósi fyrirhugaðs afnáms gjaldeyrishafta. Í fréttabréfinu segir að stefnt sé að því að áætlun þess efnis verði lögð fyrir ríkisstjórn í lok febrúar.