Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins kynnir í dag tillögur sínar að umbótum á ríkisfjármálum aðildarríkja sambandsins og aðgerðum til þess að stuðla að viðreisn efnahags álfunnar. Aðhald í ríkisfjármálum og hækkun eftirlaunaaldurs er meðal þeirra aðgerða sem mælt er með í skýrslunni.
Samkvæmt breska blaðinu Financial Times þá mælir framkvæmdastjórnin meðal annars með því að eftirlaunaaldur í ákveðnum ríkjum verði hækkaður og jafnframt er mælst til þess að önnur ríki geri meira til þess að örva innlenda eftirspurn í hagkerfum sínum. Ennfremur segir Financial Times að innihald skýrslunnar gæti orðið umdeilt meðal jafnaðarmanna og verkalýðshreyfinga í aðildarríkjum sambandsins þar sem að tillögurnar miðast að stærstum hluta við að aðildarríkin grípa til enn frekari aðhaldsaðgerða í ríkisfjármálum.
Að sögn blaðsins líta margir svo á að tímasetning útgáfu skýrslunnar kunni að vera óheppileg. Umfjöllun framkvæmdastjórnarinnar um efnahagslega veikleika sumra aðildarríkja sambandsins gæti grafið enn frekar undan trausti fjárfesta en það hefur farið þverrandi vegna skuldakreppunnar á evrusvæðinu. Hinsvegar hefur blaðið eftir embættismönnum í Brussel að vonir standa til að skýrslan ásamt auknum áhrifum framkvæmdastjórnarinnar á eftirlit með stjórn ríkisfjármála í einstaka aðildarríkjum verði einmitt til þess að auka traust fjárfesta á efnahagssamvinnu álfunnar.